Aurskriða féll 10 metrum frá bænum

Aurskriðan féll upp að fjósinu á bænum.
Aurskriðan féll upp að fjósinu á bænum. Jónas Erlendsson

Aurskriða féll að bænum Hvoltungu undir Eyjafjöllum í nótt. Skriðan fór rétt vestan við fjósið og lokaði veginum heim að bænum. Íbúar á bænum urðu ekki varir við neitt fyrr en þau vöknuðu í morgun, en skriðan féll 10 metra frá íbúðarhúsinu.

 „Skriðan féll réttan vestan við bæinn og tók með sér girðingar og skemmdi tún,“ sagði Díana Ágústsdóttir, húsfreyja í Hvoltungu. Hún segir að skriðan hafi náð upp að fjósdyrum, en engar skemmdir hafi orðið á húsum eða vélum. Skriðan fór yfir heimkeyrsluna þannig að ófært var heim að bænum. Traktor var fenginn til að opna veginn.

Díana sagðist ekki vita hvenær skriðan féll, en hún varð ekki vör við hana fyrr en í morgun þegar fólk vaknaði.

Spýjur hafa fallið víða undir Eyjafjöllum. Spýja kom á ýtu sem var að vinna að varnargarði í Steinalæk rétt vestan við Hvoltungu. Spýjan náði að hreyfa ýtuna úr stað.

Talvert mikið hefur rignt á Suðurlandi og er Skógarfoss t.d. svartur á að líta þar sem mikil aska er í ánni. Svaðbælisá rann yfir þjóðveg 1 vestan við brúna. Skógará var lík jökulfljóti í morgun.

Veðurstofan vann snemma í sumar skýrslu um hættu á öskuflóðum undir Eyjafjöllum. Í skýrslunni segir að viðvarandi flóðahætta sé á svæðinu þar sem mikil öskulög séu í fjöllum eftir eldgosið í Eyjafjallajökli.

Traktor opnaði veginn heim að bænum.
Traktor opnaði veginn heim að bænum. Jónas Erlendsson
Svona er ástandið við Svaðbælisá rétt við Þorvaldseyri.
Svona er ástandið við Svaðbælisá rétt við Þorvaldseyri. Jónas Erlendsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert