Fleiri ferðamenn komu til landsins í júlí en í sama mánuði í fyrra. Ferðasumarið kemur því ágætlega út þrátt fyrir eldgosið í Eyjafjallajökli. Ekki er óraunhæft að gera ráð fyrir að ferðamenn yfir allt árið verði á svipuðu róli og í fyrra, en um sex þúsund færri ferðamenn komu til landsins fyrstu sjö mánuði ársins en á sama tímabili í fyrra. Íslendingar eru líka farnir að ferðast meira til útlanda en áður.
Árið í ár hefur reynt á taugar þeirra sem stýra fyrirtækjum í ferðaþjónustu hér á landi. Árið byrjaði mjög vel og í vor töluðu menn um að allt stefndi í að árið yrði algjört metár í ferðaþjónustu. Hinn 20. mars hófst gos í Fimmvöruhálsi sem virtist gera það eitt að auka áhuga ferðamanna á landinu. 14. apríl hófst hins vegar gos í toppi Eyjafjallajökuls, en gosið leiddi til gríðarlegrar röskunar á flugi. Í kjölfarið drógust bókanir til landsins mikið saman og töluvert var um afbókanir. Menn töluðu um hrun í greininni með tilheyrandi tekjutapi fyrir flugrekendur, verslun, þá sem veita gistiþjónustu og aðra þá sem byggja afkomu á ferðaþjónustu.
Eldgosið kom á vondum tíma því að einmitt í maí eru mjög margir að taka ákvörðun um hvert þeir ætli að ferðast í sumar. Auglýsingaherferðin sem hófst í júní skilaði án efa miklu, en ljóst er að margir, sem hugsanlega hefði verið hægt að fá til að koma til Íslands, voru búnir að ákveða að fara annað þegar herferðin hófst.
Icelandair ákvað í upphafi árs að auka framboð á ferðum um 13%. Um tíma voru stjórnendur félagsins með það til skoðunar að endurskoða áætlunina og draga úr framboði. Niðurstaðan varð hins vegar sú að halda óbreyttri áætlun. Birkir er ánægður með sumarið og segir að haustið líti ágætlega út. Sætanýting á Ameríkuflugi sé mjög góð og víða sé góð aukning. Aldrei áður hafi t.d. jafnmargir farþegar komið frá Þýskalandi.
Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir að þegar á allt sé litið megi ferðaþjónustan vel við una. Það skipti máli hvernig haustið verði en það sé alls ekki óraunhæft að gera ráð fyrir að fjöldi ferðamanna í ár verði mjög svipaður og í fyrra.
Ólöf segir nokkuð um að hópar sem ráðgerðu ferð til Íslands í vor hafi afbókað á meðan á eldgosinu stóð. Þetta eru t.d. fyrirtæki sem ætluðu að koma í svokallaðar hvataferðir. Hún segist vona að hópar sem þessir hafi í reynd aðeins frestað ferðum sínum.
Ólöf bendir á að þegar fjallað sé um þessi mál þurfi að hafa í huga að það er niðursveifla í efnahagslífi á mörgum okkar helstu markaðssvæðum. Það sé því mjög viðunandi niðurstaða að ferðamönnum frá löndum eins og t.d. Bretlandi hafi ekki fækkað milli ára.
Ólöf treystir sér ekki til að meta hversu miklum tekjur erlendir ferðamenn skili í samanburði við síðasta ár. Hafa þurfi í huga að þegar ferðamönnum fækkaði í vor vegna gossins gripu mörg fyrirtæki til þess ráðs að auglýsa tilboð á þjónustu. Hún segir að það sé enn hagstætt fyrir erlenda ferðamenn að koma til Íslands og að þess sjái stað í útgjöldum þeirra þegar til landsins er komið.