Telur að framið hafi verið verkfallsbrot

Slökkviliðsmenn sýndu starfsfólki Ráðhússins hvernig á að slökkva eld.
Slökkviliðsmenn sýndu starfsfólki Ráðhússins hvernig á að slökkva eld. mbl.is

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna mótmælir harðlega að flugi sem fara átti til Akureyrar skuli hafa verið flutt til Húsavíkur. Sambandið telur þetta skýr verkfallsbrot.

„Starfsmenn stéttarfélaga sem vinna við innanlandsflug, í einhverjum tilvikum aðildarfélaga BSRB sem LSS á aðild að, ganga í þau störf sem félagsmenn LSS sinna ekki í löglega boðuðum verkfallsaðgerðum. LSS átelur harðlega þátt  ISAVIA sem lagði að starfsmönnum sínum að ganga í störf félagsmanna LSS í verkfalli.

Þá vakna óneitanlega spurningar um hvort nægilega hafi verið gætt að öryggi á Aðaldalsflugvelli við Húsavík.

Í tilkynningu frá LSS segir að í aðdraganda boðaðra aðgerða hafi sambandið reynt að leysa úr ágreiningsmálum vegna framkvæmdar verkfallsins á friðsaman hátt, en án árangurs. „Fyrir liggur að hart verður brugðist við brotum sem þessum, komi þriðji hluti boðaðra verkfallsaðgerða LSS, til framkvæmda föstudaginn 13. ágúst n.k. Ekki er tímabært að skýra að svo stöddu frá í hverju þau viðbrögð felast.

LSS bindur þó enn vonir við að samkomulag takist við LN áður en til verkfallsaðgerða kemur n.k. föstudag og lýsir enn og aftur yfir fullum vilja til að setjast að samningaborði og leysa deiluna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka