Mörg þúsund manns eru nú við Arnarhól á Hinseginhátíð. Hátíðin fer vel fram. Fyrr í dag fór fram gleðiganga niður Laugaveg.
Jón Gnarr, borgarstjóri, leiddi hina árvissu gleðigöngu Hinsegin daga í dag sem er sú tólfta sem haldin er á Íslandi. Borgarstjóri var í hátíðarklæðum í tilefni dagsins og var á vel skreyttum bíl frá gatnadeild Reykjavíkurborgar. Með borgarstjóra í för voru nokkrir borgarfulltrúar í Reykjavík, og skörtuðu þeir einnig sínu fínasta pússi.
„Með þátttöku Reykjavíkurborgar í gleðigöngunni viljum við sýna hommum og lesbíum á Íslandi virðingu og stuðning,“ segir Jón Gnarr borgarstjóri.
Gangan í dag var ein sú fjölmennasta frá upphafi og gekk afar vel að sögn aðstandenda.
Meðal skemmtikrafta á Hinseginhátíð eru Elektra, Bergþór Pálsson, Haffi Haff, Sigga Beinteins, Friðrik Ómar og Páll Óskar sem stjórnar fjörinu.