Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur óskað eftir því að viðskiptaráðuneytið fari yfir eignarhald erlendra fjárfesta í sjávarútvegi þar sem sjávarútvegráðuneytið hafi ekki heimild til þess samkvæmt lögum. Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins.
Ráðherrann vill meðal annars vita er hver raunverulega eigi fyrirtækið Storm Seafood og hvort erlendir fjárfestar eigi í fleiri sjávarútvegsfyrirtækjum.
Útgerðarfélagið Stormur Seafood hefur á undanförnum mánuðum fest kaup á um 1200 tonnum af kvóta og fimm útgerðarfélögum sem munu renna inn í rekstur Storms á næstunni. Fram hefur komið, að ein ríkasta fjölskylda Kína á 43 % í Stormi.