Stjórn Bandalags háskólamanna, BHM, samþykkti á fundi sínum í dag ályktun þar sem lýst var yfir stuðningi við kjarabaráttu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, LSS.
„Bandalag háskólamanna lýsir yfir stuðningi við kjarabaráttu Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og tekur undir réttmæti þess að laun þeirra endurspegli þá sérþekkingu og sérþjálfun sem starf þeirra krefst og ekki síður þá ábyrgð gagnvart bæði verðmætum og mannslífum sem þeir bera í starfi.
Bandalagið telur verulega ámælisvert þegar gagnaðili neitar að ræða lögmætar kröfur kjarafélaga og telur óheillavænlegt þegar núverandi ástand í efnahagsmálum er misnotað til þess að víkja frá eðlilegum samskiptareglum á vinnumarkaði," segir í ályktun BHM.