Tvítugur björgunarsveitarmaður bjargaði tveimur frönskum ferðamönnum úr Krossá í gær en fólkið hafði fest bíl sinn í ánni. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að björgunarsveitarmaðurinn hafi farið á kaf í ánni og nærri misst meðvitund.
Rætt er við björgunarsveitarmanninn, Ásmund Þór Kristmundsson, í blaðinu. Hann segist hafa verið á gangi í Húsadal ásamt unnustu sinni þegar þau hittu ferðamenn sem gáfu til kynna að eitthvað væri að í Krossá. Í ánni var lítill Suzuki-bíl á floti.
Ásmundur batt um sig reipi og festi við bíl á bakkanum. Hann óð síðan út í ána og náði að bjarga karli og konu sem voru í bílnum en ferðamenn á bakkanum drógu þau í land. Fram kemur í Fréttablaðinu að Ásmundur hafi verið nærri því að drukkna og að björguninni lokinni hneig hann hálf meðvitundarlaus niður á árbakkann.