Búin að ná botninum

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði í Kastljósi Sjónvarpsins, að margt benti til þess, að Íslendingar hefðu náð botninum í samdráttarskeiðinu eða að efnahagslífið sé jafnvel þegar farið að rétta úr kútnum.

Már sagði þótt afturbatinn væri hægur og ekki væri mikill kraftur í uppsveiflunni kynni að vera að hagvöxturinn hefði byrjað á fyrrihluta ársins. Már sagði að kaupmáttur væri að aukast á ný og atvinnuleysi væri mun minna en reiknað var með.

Þá sagði Már, að það skipti einnig máli, að uppsveiflan væri án þess að fast verðbólguvandamál fylgdi með. Hugsanlega yrði undirliggjandi verðbólgumarkmiði náð fyrir árslok. 

Már sagðist jafnframt vona að unnt yrði að aflétta gjaldeyrishöftum sem fyrst, því þau væru neyðarbrauð . „Ég tel að þau hafi verið nauðsynleg, en eftir því sem þau eru lengur því meiri skaða geta þau farið að valda," sagði Már og nefndi að þau hindruðu viðskiptatækifæri, erfiðara væri að fá erlenda fjárfestingu o.s.frv.  Því væri brýnt að losna undan þeim sem fyrst.

Aðspurður hvers vegna Seðlabankinn hefði ekki birt lögfræðiálit sem lögmannsstofan LEX vann fyrir hann með þeirri niðurstöðu að gengistryggð lán væru ólögleg sagðist Már ekki getað svarað nákvæmlega fyrir það, þar sem hann hefði ekki starfað í bankanum á þeim tíma, en hann teldi að það hefði verið mjög tvíbent og hefði getað valdið fjármálalegum óróa. Auk þess hafi lögfræðistéttin skipst í tvennt og fjölmargir innan stjórnsýslunnar verið ósammála, en Seðlabankinn hafi sjálfur ekki tekið afstöðu til álitsins.

„En ég ítreka að ég held það hafi aldrei verið lagst yfir það og tekin ákvörðun um að birta þetta ekki. Við eru alltaf að fá álit um hvaða hættur eru í kerfinu og hvað gæti gerst, það væri til að æra óstöðugan að birta það allt." Má sagði að þrátt fyrir gagnrýni á leyndarhyggju eftir hrunið væri staðreyndin sú að það gæti aldrei allt verið uppi á borðum. „Það er ekki hægt að móta stefnu ef allt er frá fyrsta degi uppi á borðum, þá næst engi vitræn umræða."

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert