Berjaspretta er óvenju góð þetta árið og hafa sérfræðingar sagt, að það stefni í metár.
Eins og á öðrum stöðum á landinu hafa ber þroskast óvenju snemma í Vestmannaeyjum og félagar í gönguklúbbnum Doddunum tóku forskot á sæluna um helgina og brugðu sér í berjamó í hrauninu vestur á Heimaey. Þeir slógu síðan upp berjaveislu með sykri og rjóma að gömlum sið.
Að sögn félaga í klúbbnum eru þeir vanir að fara nokkrum sinnum í berjagönguferðir á haustin. Ferðin nú hafi eiginlega verið forskot á sæluna og berin þurfi enn 2-3 vikur til að ná fullum þroska þótt innan um hafi verið stór og sæt krækiber.