ESB hótar aðgerðum vegna makríls

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins segir, að hætti Íslendingar og Færeyingar ekki við áform um að stórauka makrílveiðar sínar kunni Evrópusambandið að hætta að skiptast á veiðiréttindum við þessar þjóðir á næsta ári.

Maria Damanaki, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, segir í yfirlýsingu að ESB muni leggja alla áherslu á að leysa þessa deilu og ná samkomulagi við allar þær þjóðir, sem nýta makrílstofninn í Atlantshafi.

Damanaki segir að takist þetta ekki geti hún ekki tryggt, að haldið verði áfram að skiptast á fiskveiðiréttindum við Ísland og Færeyjar árið 2011. 

Samkvæmt reglugerð um makrílveiðar hér við land má sjávarútvegsráðherra stöðva þær þegar náð hefur verið 130 þúsund lesta afla. Evrópusambandið, Noregur, Ísland og Færeyjar hafa átt nokkra fundi á þessu ári um stjórn makrílveiða í Atlantshafi án þess að komast að niðurstöðu. Næsti fundur verður í október þar sem leita á samkomulags um heildarstjórnun makrílveiðanna frá og með næsta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka