Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóri veltir því nú opinberlega fyrir sér á vefsíðu sinni, þar sem hann heldur dagbók borgarstjóra, hvort rétt væri að sleppa flugeldasýningunni sem um árabil hefur verið lokapunkturinn í dagskrár menningarnætur í nafni sparnaðar eða hvort það væri lýðskrum.
„Hér er smá vandamál sem ég veit ekki alveg hvernig ég á að tækla,“ segir Jón á síðunni. „Á Orkuveitan að vera með þriggja milljón króna flugeldasýningu á Menningarnótt eins og venjulega? Er það bruðl? Er skrum að sleppa því? Er þetta smámál eða stórmál?“
Viðbrögðin láta ekki á sér standa því á þeirri klukkustund sem liðin er síðan Jón varpaði spurningunni fram hafa 223 sagt skoðun sína á málinu og virðist afstaða fólks vera klofin. Sumir telja að flugeldasýningin sé sannarlega bruðl og réttara væri að nýta peningana í velferðarmál eða til þess að greiða laun borgarstarfsmanna. Aðrir benda á að flugeldasýningin njóti mikilla vinsælda og þótt vissulega væri hægt að skera niður allt það sem þykir skemmtilegt og verja aðeins fé í það allra mikilvægasta þá sé minna stundum meira og flugeldasýning muni færa gestum Menningarnætur mikla gleði. Það hafi einmitt verið stefna Besta flokksins að gera Reykjavík að skemmtilegri borg.
Menningarnótt verður haldin laugardaginn 21. ágúst næstkomandi og bíða eflaust margir spenntir eftir því að sjá hver niðurstaða borgarstjóra verður í flugeldamálinu.