„Þeir verða að átta sig á því að þeir verða að fara að lögum, þetta er deilistofn sem er innan okkar lögsögu svo við höfum heimildir til að veiða hann,” segir Adolf Guðmundsson, formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna.
Mbl.is bar undir Adolf þau ummæli Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra hjá framkvæmdastjórn ESB, að hætti Íslendingar og Færeyingar ekki makrílveiðum sínum samkvæmt einhliða ákvörðunum komi til greina að banna þeim alfarið að veiða innan lögsögu ESB á næsta ári.
Adolf vekur athygli á því að alltaf þurfi að semja um deilistofna „Þeir hafa neitað að semja við okkur. Við höfum óskað eftir því að komast að samningaborðinu og semja um makrílinn, en okkur hefur ekki verið hleypt að borðinu,” segir hann.
Íslendingar hafa áður samið um veiðar á norsk-íslenskri síld við Norðmenn, Evrópusambandið, Færeyinga og Rússa, samið um veiðar í Barentshafinu í rússneskri lögsögu og samið við Evrópusambandið um kolmunna og auk þess sem eftir á að semja um grálúðu við Grænlendinga og Færeyinga.
Íslendingar veiða ekkert innan lögsögu Evrópusambandsins sem stendur. Adolf vill þó ekki segja það fullum fetum, aðspurður, að hótun framkvæmdastjórnarinnar sé innantóm.
Hins vegar leggur hann mikinn þunga á að veiðar Íslendinga séu í fullum rétti og innan lagaheimilda. „Þeir geta bara nagað sig í handarbökin yfir því að hafa ekki tekið okkur að samningaborðinu,” segir Adolf