Í kvöld munu íslenskar friðarhreyfingar efna til kertafleytingar á Reykjavíkurtjörn, líkt og gert hefur verið á hverju ári frá 1985. Með þessu minnast íslenskir friðarsinnar fórnarlamba kjarnorkuárásanna á japönsku borgirnar Hiroshima og Nagasaki árið 1945 og árétta kröfu sína um kjarnorkuvopnalausa framtíð.
Á sama tíma verður kertum fleytt á Seyðisfirði, en norðlenskir friðarsinnar standa fyrir sinni kertafleytingu á Akureyri fimmtudagskvöldið 12. ágúst kl. 22, við Minjasafnstjörnina.
Í dag minntust íbúar Nagasaki árásarinnar fyrir 65 árum en alls létust um 70 þúsund borgarbúar í árásinni sem var gerð einungis þremur dögum eftir árásina á Hiroshima þar sem 140 þúsund manns týndu lífi. Í fyrsta skipti frá árásinni tóku fulltrúar breskra og franskra stjórnvalda þátt í minningarathöfninni í Nagasaki í morgun. Enginn fulltrúi bandarískra stjórnvalda tók þátt í athöfninni í morgun en á föstudag mætti hins vegar sendiherra Bandaríkjanna í Japan í fyrsta skipti í minningarathöfnina í Hiroshima. Er það talið merki um að núverandi Bandaríkjaforseti, Barack Obama, vilji leggja sitt af mörkum til þess að að draga úr notkun kjarnaorkuvopna.