Strandveiðum lauk á fimmtudag á Vesturlandi og á föstudag notuðu menn tækifærið á Ströndum og fóru á rekaveiðar og sóttu reka á fjörur undir snarbröttum hömrum Reykjaneshyrnu.
Ægir Thorarensen sem stundað hefur strandveiðar á bátnum Agnesi Guðríði ÍS-800 frá Norðurfirði, bauðst til að fara eina rekaferð. Að sögn Jóns G. Guðjónssonar í Litlu-Ávík er aðeins hægt að komast á þessar fjörur frá sjó og því þarf að koma viðnum aftur í sjóinn og flytja heim á bátum.
Var sá háttur hafður á, að menn bundu saman spýturnar í fjörunni með vissu millibili og síðan var farið með kaðal út í bátinn og hann dró viðinn út á sjó. Loks var spýtuflotanum safnað saman og hann dregin á Agnesi Guðríði uppundir vörina í Litlu-Ávík.