Samtök verslunar og þjónustu voru ekki beðin um að veita umsögn um frumvarp til laga um breytingar á búvörulögum. Segja samtökin að með frumvarpinu sé verið að innleiða algera einokun við vinnslu og markaðssetningu á mjólkurafurðum á Íslandi. Það sé eitt alvarlegasta afturhvarf frá frjálsri samkeppni sem sést hafi um árabil á Íslandi.
Kemur fram í umsögn SVÞ að önnur hagsmunasamtök atvinnurekenda innan Samtaka atvinnulífsins hafi heldur ekki fengið frumvarpið til umsagnar.
„Engu að síður senda samtökin hér með umsögn sína um frumvarpið um leið og þau lýsa furðu sinni á því að þau samtök sem hafa innan sinna vébanda flest þau fyrirtæki sem sjá um að koma mjólkurvörum til neytenda, skuli af Alþingi ekki vera talin þess umkomin að láta í ljós álit sitt á efnisatriðum þessa frumvarps. Samtök verslunar og þjónustu telja það einnig furðu sæta að frumvarpið skuli hafa verið samið í beinni samvinnu við hagsmunasamtök bænda og afurðastöðva, án þess að nokkrir aðrir hafi haft möguleika á aðkomu að þeirri vinnu.
Með
frumvarpi þessu er verið að innleiða algera einokun við vinnslu og
markaðssetningu á mjólkurafurðum á Íslandi. Er þar með verið að hverfa frá því
skrefi sem stigið var fyrir fáum árum þegar opnað var fyrir nokkra samkeppni á
þessum markaði. Frumvarpið, ef af lögum verður, mun fela í sér eitt
alvarlegasta afturhvarf frá frjálsri samkeppni sem sést hefur um langt árabil
hér á landi. Hér er verið að velja einokun og hafna atvinnufrelsi. SVÞ hafna
þessum lagasetningaráformum algerlega, enda eru þau í hreinni andstöðu við það
stefnumið samtakanna að frjáls óháð samkeppni skuli ríkja á öllum sviðum
atvinnulífsins. Með því móti verði neytendum í landinu tryggð vara og þjónusta
á eins hagstæðum kjörum og kostur er hverju sinni," segir meðal annars í umsögn SVÞ.