Rúmlega tíu manns koma til starfa hjá embætti sérstaks saksóknara um næstu mánaðamót, en embættið réð nýlega á þriðja tug nýrra starfsmanna til sín. Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir að hinir hefji líklega störf um mánaðamótin september-október.
Sumarfríum er nú að mestu lokið hjá embættinu og það því að komast á fulla ferð aftur. Mikið púður var sett í rannsókn á meintum efnahagsbrotum innan Kaupþings snemmsumars, fram að miðjum júní en svo lá starfsemin í láginni í júlí.
Fulltrúar frá Serious Fraud Office í Bretlandi komu á vinnufundi með embættinu í síðustu viku og báru saman bækur sínar við íslenskar hliðstæður sínar, sem eru að rannsaka svipuð eða sömu mál.
„Það er allt á fullu án þess að maður geti sagt sérstakar fréttir af því,” segir Ólafur Þór og verst allra frétta af gangi mála. „Við erum auðvitað með rosalega mörg mál opin. Þessi mál eru mislangt á veg komin og því miður er ekki hægt að greina frá því hvernig þau standa.”
Hann segir stefnt að því að gefa út fleiri ákærur innan „ekki of langs tíma” en vill ekki greina nánar frá tímasetningum í því sambandi.
Hann segir að samstarfið við Serious Fraud Office í London gangi enn vel. Það gagnist báðum aðilum vel. „Það hallar ekki á einn eða annan í því. Það er þrælgott að hafa stuttar boðleiðir á milli manna sem vinna að rannsóknum á sömu málum,“ segir Ólafur Þór.