Lögreglan á Sauðárkróki hefur nú dularfullan bílþjófnað þar í bæ til rannsóknar. Á aðfaranótt mánudags hvarf svartur Range Rover jeppi af bílastæði hjá fyrirtækinu Vörumiðlun. Bíllinn, sem er ógangfær, hafði staðið þar fyrir utan í fjögur ár og aldrei verið skráður.
„Bíllinn var líklega tekinn upp á kerru, að öllum líkindum á milli klukkan hálfeitt og hálftvö um nóttina,“ segir varðstjóri hjá lögreglunni á Sauðárkróki. Hann segir ljóst að haldið hafi verið suður á bóginn með bílinn þar sem orðið hafi vart við ferðir hans á Þverárfjallsveginum og þá á leiðinni suður.
Réttmætur umráðamaður bílsins er í raun Tollgæslan, en sá sem flutti bílinn inn á sínum tíma er búsettur á Króknum. Þegar bíllinn kom til landsins var rafkerfið í honum bilað og hann ógangfær. Hins vegar er ljóst að mikil verðmæti eru í bílnum sem slíkum, grind og yfirbyggingu, vél, drifi og fleira slíku.
Lögreglan hefur látið skoða upptökur úr öllum eftirlitsmyndavélum á leiðinni til Reykjavíkur en hvergi kemur bíllinn fram. Því er ljóst að hafi þjófarnir farið alla leið til Reykjavíkur með bílinn hafa þeir skipulagt sig vel og verið með nóg af eldsneyti meðferðis. Hvergi kemur slíkur bíll með Range Rover í eftirdragi fram á bensínstöðvum og ekki í Hvalfjarðargöngunum.
Ummerki eru á bílastæðinu eftir það þegar bíllinn hefur verið dreginn upp einhvers konar ramp upp á kerru eða pall. Líklegt þykir að bíllinn sem dró kerruna hafi verið pallbíll eða jeppi af stærri gerðinni, t.d. Ford, Dodge Ram eða Chevrolet. Ljóst er að nokkra dirfsku þurfti til að keyra bílnum út úr bænum fyrir allra augliti, sem gátu verið á ferli á þessum tíma sólarhringsins.
Lögreglan á Sauðárkróki segist vera opin fyrir öllum ábendingum sem fólk gæti haft um ferðir Range Roversins og er fólki þá bent á að hringja í lögregluna í síma 455-3366.