Mátti ekki dreifa minnisblaðinu

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra. Kristinn Ingvarsson

Lögfræðingi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, sem kynnt var niðurstaða lögfræðiálits LEX fyrir Seðlabanka Íslands, var afhent minnisblaðið til að styðjast við í starfi sínu með því skilyrði að því yrði ekki dreift frekar um ráðuneytið eða notað með öðrum hætti. Gylfi Magnússon neitaði því í Kastljósi í kvöld að hafa á nokkurn hátt gefið misvísandi upplýsingar í umræðum á Alþingi.

Gylfi sagði í Kastljósi að það væri Seðlabankans að útskýra hvers vegna ákveðið hefði verið að upplýsa ráðherra ekki um niðurstöðu lögfræðiálitsins. Gylfi játaði því að þetta væri „frekar óvenjulegt“ en þannig hafi minnisblaðið komið inn í ráðuneytið og hann hafi því ekki vitað af tilvist hans. Sjálfur hafi hann heldur ekki getað tekið sér það vald að skipa Seðlabankanum fyrir á þessum tíma þar sem Seðlabankinn heyrði ekki undir hans ráðuneyti.

Hann sagðist heldur ekki gera neina athugasemd við starfshætti lögfræðings ráðuneytisins, sem hefði fengið þessa hjálp frá Seðlabankanum til að vinna að eigin áliti og hefði gert það mjög vel. Síðar sama sumar hafi það komið fram á fundi með lögfræðingnum að aðallögfræðingur Seðlabankans hefði ákveðnar efasemdir um lögmæti gengistryggðra lána. „Ég fæ nú ekki séð að það hafi skipt neinu máli hvort ég hafi fengið þessar upplýsingar nokkrum vikum fyrr eða síðar," sagði Gylfi. 

Gylfi segist ekki hafa gefið misvísandi upplýsingar í umræðum á Alþingi. Hann hafi þvert á móti sagt eftir sinni bestu vitneskju að enginn vafi léki á því að lán í erlendri mynt væru lögleg og bent svo á það í framhaldinu að ef einhver ágreiningur væri þá væri það dómstóla að skera úr um það en ekki viðskiptaráðuneytisins. „Þetta er niðurstaðan bæði frá lögfræðingi ráðuneytisins og nú höfum við séð að það var niðurstaða lögfræðings Seðlabankans, ég fæ ekki betur séð [en] að þetta séu réttar upplýsingar." Gylfi ítrekaði jafnframt að þetta lögfræðiálit sem Seðlabankinn lét vinna hafi ekki snúið að því sem var helsta áhyggjuefnið á þeim tíma, þ.e.a.s. lánasöfnum bankanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert