Mýrdalsjökull er enn svartur á skallanum eftir eldgosið í Eyjafjallajökli fyrr á þessu ári. Ný gervitunglamynd sem Evrópska geimferðastofnunin (ESA) tók af landinu sýnir það glögglega.
Meðfram hliðunum og í hlíðum jökulsins er hann hins vegar mun ljósari á að líta, enda er hann þar á meiri hreyfingu og brotnar meira upp svo öskulagið rofnar.
Myndin sýnir raunar vel litamuninn á skriðjöklunum og jökulhettunum almennt. Vel sést hvernig jöklarnir renna og hversu langir þeir eru. Þegar horft er á Vatnajökul sést hversu víðáttumiklir Skeiðarárjökull og Breiðamerkurjökull eru í raun.
Vel sést á myndinni hversu lítið hefur snjóað í jöklana að undanförnu, enda eru þeir skítugir og mjög dökkir á að líta.
Myndina í heild sinni má finna hér, en hún er mjög stór og getur því tekið dálitla stund að hlaðast niður. Myndin sýnir einnig vel hafísinn við Grænland og norður af landinu.
Hér er hægt að skoða myndskeið sem Þyrluþjónustan tók af Eyjafjallajökli