Ranglega vitnað í ræðu ráðherra

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra. mbl.is6

Ranglega hefur verið vitnað í ummæli Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra um lán á erlendri mynt í þingræðu þann 1. júlí 2009, samkvæmt tilkynningu frá ráðuneytinu. Þar er vísað í kvöldfréttir Ríkissjónvarpsins í gær þar sem sagði að ráðherra hefði í ræðunni fullyrt að lögfræðingar ráðuneytisins teldu að gengistryggð lán væru lögleg.

Að sama skapi vísar ráðuneytið á bug þeirri fullyrðingu Eyglóar Harðardóttur þingmanns í viðtali við Ríkisútvarpið í morgun að ráðherra hefði veitt Alþingi rangar upplýsingar varðandi gengistryggð lán. Ráðuneytið segir Eygló fara með rangt mál, þvert á móti komi skýrt fram í ræðunni að ráðherra vitni til niðurstöðu sérfræðinga um lögmæti lána í erlendri mynt.

Í umræðunni beindi Ragnheiður Ríkarðsdóttir þingmaður eftirfarandi spurningu til ráðherra: „Telur [ráðherra] lögmæti myntkörfulána hafið yfir allan vafa?"

Svar ráðherra var eftirfarandi: „Ég vík fyrst að fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur um lögmæti lána í erlendri mynt. Lögfræðingar bæði í viðskiptaráðuneytinu og annars staðar í stjórnsýslunni hafa vitaskuld skoðað það mál. Niðurstaða þeirra er að lánin séu lögmæt. En það er auðvitað ekki framkvæmdarvaldsins að skera úr um það."

Ráðuneytið bendir á að í svari ráðherra hafi einnig komið fram að ef réttarágreiningur risi um þessi lán væri það dómstóla að skera úr um lögmæti þeirra, það væri hvorki á valdi viðskiptaráðuneytisins né annarra arma framkvæmdarvaldsins að gera það.

„Þann 9. júní 2009 gerði lögfræðingur viðskiptaráðuneytisins minnisblað um lánveitingar í erlendri mynt. Ráðherra var kynnt efni minnisblaðsins 24. júní 2009. Niðurstaða minnisblaðsins sem birt er hér á vef ráðuneytisins var sú að hvorki lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 né lög um neytendalán nr. 121/1994 banni lánveitingar í erlendri mynt," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu í dag.

„Svar ráðherra er þannig í samræmi við niðurstöðu minnisblaðs ráðuneytisins. Athygli skal vakin á því að í spurningu Ragnheiðar var talað um myntkörfulán, í spurningum Birkis Jóns um erlend lán og í svari ráðherra um lán í erlendri mynt. Eins og fram kemur í minnisblaði ráðuneytisins var við því að búast að réttarágreiningur kynni að rísa um það hvort lánssamningur sé raunverulega í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldmiðli. Lög nr. 38/2001 taki jafnframt af skarið um það að verðtrygging á lánum í íslenskum krónum sé aðeins heimil ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. Niðurstaða um þessi álitaefni veltur á atvikum hverju sinni, efni samnings og atvikum við samningsgerð og eiga dómstólar lokaorðið."

„Minnisblað ráðuneytisins tiltekur þannig dæmi um mismunandi gerðir samninga og að heildarmat þurfi að fara fram á efni samnings, með hliðsjón af atvikum við samningsgerð, stöðu samningsaðila o.s.frv., sem kallar „á sjálfstæða túlkun m.t.t. þess mögulega álitaefnis hvort um ræði lánveitingu í íslenskum krónum eða lánveitingu í erlendum gjaldmiðli. Það er dómstóla að skera úr um slíkt í hverju tilviki fyrir sig, svo sem áður greinir.

Seðlabankinn hefur þegar birt á vef sínum minnisblað aðallögfræðings bankans og lögfræðiálit lögfræðistofunnar LEX til bankans. Vegna frétta fjölmiðla um það hvort ráðuneytinu hafi verið birt þessi álit skal það tekið fram að lögfræðingur ráðuneytisins sem samdi minnisblað ráðuneytisins fékk afrit af þessum skjölum vegna þeirrar vinnu sinnar en ekki til annarra nota. Seðlabankinn kynnti ekki efni minnisblaðanna fyrir ráðherrum. Viðskiptaráðherra var því ekki kunnugt um minnisblöð Seðlabankans þegar umræðan á Alþingi átti sér stað.“

Umræðuna má alla finna á vef Alþingis:

Hér má lesa fyrirspurnir Birkis Jóns Jónssonar um bílalán í erlendri mynd
Hér má lesa svör Gylfa Magnússonar
Hér má lesa fyrirspurn Ragnheiðar Ríkharðsdóttur
Hér má lesa svar Gylfa Magnússonar við fyrirspurninni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert