Samkeppniseftirlitið gat ekki aðhafst vegna samruna Hagkaupa og Bónus á sínum tíma þar sem verslanirnar sameinuðust fyrir gildistöku samkeppnislaga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í pistli á vef Samkeppniseftirlitsins vegna gagnrýni á eftirlitið í tengslum við frumvarp til búvörulaga.
„Í opinberri umfjöllun um matvörumarkaði, nú og á fyrri tíð, hefur því ítrekað verið haldið fram að samkeppnisyfirvöld hafi heimilað samþjöppun í smásölu matvara, nú síðast í tengslum við umræður um breytingar á mjólkurmarkaði. Þannig hafi samkeppnisyfirvöld m.a. leyft Högum að verða markaðsráðandi á þessu sviði matvörumarkaðar.
Sérstaklega hefur því verið haldið fram að samkeppnisyfirvöld hafi látið hjá líða að koma í veg fyrir samruna Bónuss og Hagkaups og síðar samruna Baugs (nú Haga) og 10-11 verslananna.
Hvoru tveggja er rangt," samkvæmt pistlinum.
Samruni Hagkaupa og Bónusar, í skilningi samkeppnislaga, átti sér stað í nóvember 1992. Samkeppnislög tóku gildi 1. mars 1993. Þegar samruninn átti sér stað voru engin ákvæði í íslenskum lögum sem heimiluðu stjórnvöldum að setja skorður við samruna af þessu tagi. Þá þegar af þeirri ástæðu var samkeppnisyfirvöldum aldrei fært að gera athugasemdir við samrunann.