Ríkið getur ekki mælt einhliða fyrir um skerðingu fjárframlaga til Þjóðkirkjunnar heldur verður að semja um hana. Þetta leiðir af samkomulagi milli ríkis og kirkju um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna Þjóðkirkjunnar frá árinu 1997.
Niðurskurður í fjárlögum fyrir þetta ár byggðist á viðaukasamningi við þetta samkomulag. Þjóðkirkjan hefur hafnað því að mæta kröfum ríkisins um 9% niðurskurð framlaga til hennar árið 2011, með vísan til nefnds samkomulags. Telur dómsmálaráðuneytið ekki alla kostnaðarliði kirkjunnar heyra undir þetta samkomulag, að því er fram kemur í umfjöllun Morgunblaðsins um þetta mál í dag.