„Fréttir af andláti Spaugstofunnar eru stórlega ýktar,“ segir Pálmi Gestsson , leikari og Spaugstofumaður. Þótt eitt herbergi lokist þá séu þau mörg í þeirra húsi og jafnvel stærri.
Forráðamenn Rúv tilkynntu Spaugstofumönnum það í dag að þáttur þeirra yrði ekki á dagskrá næsta vetur. Ástæðan fyrir því að þátturinn verður ekki á dagskrá er 9% niðurskurður sem RÚV þarf að fara eftir.
Pálmi segir líklegt að þeir félagar haldi áfram með Spaugstofuna þótt það verði á einhverju öðru formi. Hann útilokar ekki endurkomu á sjónvarpsskjáinn.
„Þetta var nú eitthvað sem við áttum alveg eins von á í ljósi þess hve Sjónvarpið er í miklu fjársvelti,“ segir Pálmi. Alvarlegu tíðindin séu þau hve mikið sé þrengt að Sjónvarpinu og þá sértaklega hvað varðar íslenskt efni.
Spaugstofan hefur verið starfandi í 21 ár, eða á þriðja áratug, en þó með hléum. „Við höfum aldrei samið nema til eins árs í senn þannig að það hefur lítið starfsöryggi verið í þessum geira“.
Pálmi segir þá félaga stútfulla af hugmyndum sem þeir hafi verið að gæla við í gegnum tíðina. Margar hafi aldrei komist til framkvæmda vegna tímaskorts. Þeir félagar óttast því ekki verkefnaskort þó svo ekkert sé í hendi í þeim efnum. Þar að auki hafi þeir flestir í nógu að snúast á fjölum leikhúsanna.
„Dægurtengd þjóðfélagsrýni er bráðnauðsynleg í hverju þjóðfélagi og hún fellur aldrei úr gildi hvort sem við sjáum um hana eða ekki.“