Seðlabankinn kynnti lögfræðiálit LEX um heimildir til gengistryggingar fyrir lögfræðingi viðskiptaráðuneytisins, en efni þess var hinsvegar ekki kynnt fyrir ráðherrum. Var því hvorki viðskiptaráðherra né forsætisráðherra kunnugt um minnisblöð Seðlabankans þegar umræða átti sér stað á Alþingi um málið í júlí í fyrra.
Jóhanna Sigurðardóttir sagðist á blaðamannafundi eftir ríkisstjórnarfund í dag vera afar ósátt við það að hafa ekki verið upplýst um lögfræðiálitið. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum var ekki tekin meðvituð ákvörðun um það á sínum tíma að upplýsa ekki ráðherra um minnisblaðið, það hafi einfaldlega verið eitt af fjölmörgum málum sem voru í gangi. Ákveðið hafi verið að rétt væri að kynna það tilteknum aðilum innan viðskiptaráðuneytisins, þar sem það efnislega átti heima. Það hafi verið gert og talið nóg, þar með hafi það verið komið út úr Seðlabankanum en hvorki hafi komið upp sú hugmynd né sú krafa að fylgja því frekar eftir enda hafi ekki þótt tilefni til.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri talaði á svipuðum nótum í Kastljósi í gærkvöld og benti meðal annars á að þrátt fyrir álit LEX hefði lögfræðistéttin nánast verið klofin um málið á þessum tíma og vitað hafi verið til þess að fjölmargir lögfræðingar innan stjórnsýslunnar væru á annarri skoðun um lögmæti gengistryggingar. Minnisblaðið hafi verið eitt af fjölda mála á borði Seðlabankans á þeim tíma og ekki risið hæst.