Vissi ekki af áliti og krefst útskýringar

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segist ekki hafa vitað af lögfræðiáliti Seðlabanka Íslands og er afar ósátt við að hafa ekki verið upplýst um það. Þetta kom fram á blaðamannafundi forsætis-, fjármála- og efnahags- og viðskiptaráðherra eftir ríkisstjórnarfund í dag.

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra vísaði ásökunum um að hafa logið í þingræðu sinni alfarið á bug. Eygló Harðardóttir þingmaður Framsóknarflokksins sagði fyrir stuttu að ráðherrann hefði sagt ósatt í þingstól Alþingis, þegar hann talaði um lögmæti lána í erlendri mynt. Gylfi áréttaði að í þingstól hafi hann einungis talað um lán í erlendri mynt, en ekki gengistryggð lán í erlendri mynt. Ráðherrann beindi þeim tilmælum til þingmanns Framsóknarflokksins að kynna sér betur efni ræðunnar, sem hann kvað ekki langa.

Málefni umboðsmanns skuldara báru einnig á góma. Forsætisráðherra sagðist telja að eðlilegra hefði verið ef skuldastaða umsækjenda hefði verið athuguð áður en ráðið var í embættið. Aðspurð hvort Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra ætti að víkja, svaraði Jóhanna neitandi.

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert