Allsherjar endurskoðun búvörulaga óhjákvæmileg

Ólína Þorvarðardóttir og Ögmundur Jónasson á Alþingi.
Ólína Þorvarðardóttir og Ögmundur Jónasson á Alþingi. mbl.is/Ómar

Ólína Þorvarðardóttir, sem situr í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd Alþingis fyrir Samfylkinguna, segir óhjákvæmilegt að fara í allsherjar endurskoðuná búvörulögunum að undangenginni nýrri stefnumótun þar sem hagsmunir neytenda verði metnir til jafns við aðra hagsmuni.

Ólína gerði fyrirvara við álit landbúnaðar- og sjávarútvegsnefndar um frumvarp landbúnaðarráðherra, sem verið hefur mikið í umræðunni síðustu daga. Samkeppniseftirlitið lýsti því meðal annars yfir, að yrði frumvarpið að lögum myndi það skaða bæði neytendur og bændur.

Ólína fjallar um málið á bloggsíðu sinni í dag og segir, að frumvarpið feli ekki í sér neinar grundvallarbreytingar á ríkjandi fyrirkomulagi. Það geri hins vegar ráð fyrir hertum viðurlögum við því að framleiða mjólk utan leyfirlegra marka búvörusamnings og sé hótað sektum og jafnvel varðhaldi. Það hafi valdið úlfúðinni sem nú sé uppi.

Segir Ólína að í raun ríki einokun á mjólkurmarkaði á Íslandi. „Þung rök hníga að því að það muni ekki duga til að breyta því frumvarpi sem nú liggur fyrir, eða fella það – einokun á mjólkurmarkaði mun ekki hverfa við það. Mér virðist því óhjákvæmilegt að nú verði farið í allsherjar endurskoðuná búvörulögunum að undangenginni nýrri stefnumótun þar sem hagsmunir neytenda verða metnir til jafns við aðra hagsmuni (að almannahagsmunir verði ekki túlkaðir sem hagsmunir bænda eingöngu), og að virtu atvinnufrelsi og jafnræðissjónarmiðum." segir Ólína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert