Glitnir í Lúxemborg stofnar umsýslufélag

Glitnir í Lúxemborg fyrir hrun.
Glitnir í Lúxemborg fyrir hrun. mbl.is/Ólafur

Glitnir í Lúxemborg hefur stofnað dótturfélagið Reviva Capital til að annast umsýslu og reksturs eignasafns bankans. Reviva Capital hefur hlotið starfsleyfi frá yfirvöldum og fjármálaeftirliti Lúxemborgar til að annast innheimtu- og eignaumsýslustarfsemi og hyggst félagið jafnframt bjóða öðrum aðilum þjónustu sína.

Hjá Reviva Capital starfa átján starfsmenn, þar af níu Íslendingar. Stjórnendur og lykilstarfsmenn Glitnis í Lúxemborg eiga 10% hlut í félaginu sem að öðru leyti er í eigu Glitnis í Lúxemborg. Eignarhlutur starfsmanna er skilyrtur og tengdur markmiðum félagsins til lengri tíma.

Á meðal minnihlutaeiganda í Reviva Capital eru Ari Daníelsson framkvæmdastjóri, Paul Embleton fjármálastjóri, Sigþór H. Guðmundsson yfirlögfræðingur og Fredrik Engman yfirmaður lánasviðs. Í stjórn Reviva Capital sitja Eric Collard slitastjóri Glitnis í Lúxemborg, Kristján Óskarsson framkvæmdastjóri skilanefndar Glitnis á Íslandi og Ari Daníelsson framkvæmdastjóri Reviva Capital.

Samkvæmt upplýsingum frá skilanefnd Glitnis hefur Reviva Capital gert þjónustusamning við slitastjóra Glitnis í Lúxemborg um rekstur eignasafns Glitnis sem sé að mestu lán til evrópskra fasteignafélaga. Eru eignir bankans að stærstum hluta í Þýskalandi, á Norðurlöndum og í Bretlandi.

Reviva Capital sinnir eignaumsýslu og innheimtu auk ráðgjafar á sviði fjárhagslegrar endurskipulagningar. Viðskiptavinir félagsins eru bankar, fjárfestingasjóðir, skiptastjórar og aðrir sem ráða yfir eignum og lánasöfnum sem þarfnast úrvinnslu, endurskipulagningar og innheimtu.

Eignir í stýringu hjá Reviva Capital nema nú um 1,6 milljörðum evra, sem jafngildir um 250 milljörðum íslenskra króna. Eignirnar eru að stórum hluta lán til fasteigna- og eignarhaldsfélaga, en einnig lán til einstaklinga.

Reviva Capital gerði nýverið samning við þrotabú Landsbankans í Lúxemborg og við tvo stærstu kröfuhafa hans, Seðlabanka Lúxemborgar og skilanefnd Landsbanka Íslands, um umsýslu og innheimtu á stórum hluta eignasafns þrotabús Landsbankans í Lúxemborg.  Samhliða þessu hefur Reviva Capital ráðið til sín nokkra af fyrrum starfsmönnum Landsbankans í Lúxemborg.

Glitnir í Lúxemborg er í dag í hefðbundinni slitameðferð en í því felst að unnið er úr eignum bankans yfir lengra tímabil með það markmiði að hámarka virði þeirra. Bankinn fór í greiðslustöðvun í október 2008 í kjölfar hruns móðurfélags bankans á Íslandi.

Við fjárhagslega endurskipulagningu Glitnis í Lúxemborg umbreytti skilanefnd Glitnis lánum móðurfélagsins í eigið fé og fer hún með allt hlutafé bankans.  Á meðan á greiðslustöðvun stóð náðust samningar við helstu kröfuhafa og yfirvöld í Lúxemborg. Það samkomulag skilaði fullum endurheimtum til innlánshafa og almennra kröfuhafa, sem fengu fjármuni sína greidda út í apríl 2009.

Að lokinni greiðslustöðvun í apríl 2009 skilaði Glitnir inn bankaleyfi sínu í Lúxemborg og fór í slitameðferð í samræmi við lög og reglur í Lúxemborg. Búast má við að slitameðferðin taki að lágmarki 5 ár. Þegar Glitnir var tekinn til slitameðferðar leysti þarlendur slitastjóri stjórn Glitnis í Lúxemborg frá störfum og fer því með stjórn bankans á meðan á slitameðferðinni stendur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert