Spáir „makrílstríði" við ESB

Huginn VE veiðir mikið af makríl í óþökk Evrópusambandsins.
Huginn VE veiðir mikið af makríl í óþökk Evrópusambandsins. Þorgeir Baldursson

Í síðustu viku komu sjómenn frá Peterhead í Skotlandi í veg fyrir það að færeyskt skip landaði 900 tonnum af makríl þar, en Evrópusambandið gæti lagt viðskiptahindranir á Íslendinga eða meinað íslenskum skipum inngöngu í evrópskar hafnir í því sem gæti orðið að ,,makrílstríði”, að því er segir í umfjöllun á vefútgáfu breska blaðsins The Independent í dag.

Blaðamaður The Independent, Martin Hickman, líkir þessu við Þorskastríðin, þegar, eins og hann lýsir því, bresk herskip voru send ,,til þess að reka íslenska togara af umdeildum veiðisvæðum.” ESB hefur varað við því að það muni grípa til „allra nauðsynlegra aðgerða” til þess að vernda hagsmuni sína.

Aukinnar spennu hefur gætt í samskiptum eftir að Íslendingar ákváðu einhliða að veiða þrisvar sinnum meiri makríl í ár heldur en ESB telur réttlætanlegt. Færeyingar fylgdu í kjölfarið með svipaða ákvörðun.

Þegar sú veiði er lögð saman við það sem veitt er af ríkjum ESB og Noregi, verður heildarveiðin meiri en svo að hún teljist sjálfbær og ógnar því einum best heppnuðu veiðum á vegum ESB. Útgerð innan ESB hefur hins vegar almennt einkennst af titringi og hagsmunabaráttu.

Ísland, sem almennt hefur á sér got orð fyrir fiskveiðistjórnun, að sögn The Independent, heldur því fram að það eigi rétt á því að veiða hvaða fisk sem það vill innan 200 mílna lögsögu sinnar. LÍÚ hefur farið aðgerðirnar sem „löglegar og ábyrgar” að sögn blaðsins.

Blaðið fer ekki nánar út í afstöðu LÍÚ til málsins en á mbl.is hefur komið fram að Íslendingar hafa sóst eftir því að komast að samningaborðinu um makrílveiðarnar, en ekki verið hleypt inn í umræðuna.

Maria Damanaki yfirmaður sjávarútvegsmála hjá Framkvæmdastjórn ESB, hefur sagt að hún muni krefjast þess að deilan verði leyst svo veiðarnar verði sjálfbærar á ný. Þá hefur The Independent eftir henni: „Hins vegar, ef áfram verður stjórnleysi í makrílveiðunum og ríkin halda óraunhæfum kröfum sínum til streitu, þá mun Framkvæmdastjórnin hugleiða allar nauðsynlegar aðgerðir til að vernda makrílstofninn og gæta hagsmuna ESB.”

ESB, sem grunar að ákvörðun Íslendinga ráðist af slæmu efnahagsástandi, segir að það muni íhuga að segja sig frá öllum fiskveiðisamningum við Íslendinga, sem gæti sett fiskveiðistjórnun víða, t.d. á þorski, í uppnám. Annar möguleiki eru viðskiptaþvinganir, eða löndunarbann á íslensk skip í evrópskum höfnum.

Blaðið lýsir hörðum viðbrögðum víða við makrílveiðunum og segir að Bretland, Noregur og önnur ríki gætu tekið upp á því að hindra inngöngu Íslendinga í ESB, eða nota aðildarviðræðurnar sem tæki til þess að fá Íslendinga til að hætta makrílveiðunum.

Sjávarútvegsráðherra Skotlands sagði í gær: „Ég finn fyrir miklum liðsauka með þeirri staðfestu sem ESB sýnir í þessu máli og vona að þessi mál verði í forgrunni í aðildarviðræðum Íslendinga við ESB.”

Ítarlega umfjöllun The Independent um þetta má lesa hér í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert