Þórsmerkurleið opnuð síðdegis

Myndirnar sýna hvernig umhorfs var í morgun þegar vatn flaut …
Myndirnar sýna hvernig umhorfs var í morgun þegar vatn flaut yfir Þórsmerkurveg og nú síðdegis þegar áin er farin úr vegstæðinu. myndir/Gunnhildur L. Sigurðardóttir

Starfsmenn Vegagerðarinnar eru byrjaðir að ryðja veginn þar sem varnargarður Markarfljóts rofnaði á leiðinni inn í Þórsmörk í morgun. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli er það ekki vatn sem stöðvar bíla heldur fyrst og fremst leðja en vegurinn er ófær vegna þessa. Verður viðgerð væntanlega lokið undir kvöld.

Lögreglan var að skoða aðstæður og segir að það hafi runnið vatn yfir og í gegnum varnargarðinn á þessum stað í nokkurn tíma. Svo virðist sem hann hafi hins vegar endanlega gefið sig í nótt eða morgun með þeim afleiðingum að vegurinn fór undir vatn og aur á nokkuð stóru svæði. Er þetta áður en komið er að lóninu á leiðinni inn í Þórsmörk.

Ragnheiður Hauksdóttir, landvörður í Húsadal, sagði í samtali við mbl.is í hádeginu að talsverður aurburður hafi verið í ánum á leiðinni inn í Þórsmörk í sumar þar sem aska berst úr Eyjafjallajökli og verður að leðju þegar hún blandast saman við jökulvatnið. Til að mynda hafi Krossáin oft verið óútreiknanleg í sumar og breytt oft um farveg. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert