Ungir bændur fagna frumvarpi

Stjórn Samtaka ungra bænda hefur sent frá sér ályktun þar sem fagnað er  frumvarpi landbúnaðarráðherra um breytingar á búvörulögum. Séu fyrirhugaðar breytingar á búvörulögum til þess fallnar að styrkja grundvöll mjólkurframleiðslu í hinum dreifðu byggðum landsins.

Í ályktuninni er sérstakri ánægju lýst  með fyrirhugaða heimild í frumvarpinu þar sem aðilum í heimaframleiðslu er veitt leyfi til þess að vinna mjólk utan greiðslumarks. Gefi það aukin tækifæri fyrir mjólkurframleiðendur víðsvegar um landið til að vinna vörur úr mjólk og skapa með því verðmæta vöru heima í héraði, bændum og neytendum til heilla.

Þá segjast samtökin telja mikilvægt að lög séu skýr og að gagnvart þeim séu allir jafnir. Mjókurframleiðsla, líkt og önnur matvælaframleiðsla sé í eðli sínu verkefni þar sem huga þurfi að hagsmunum neytenda og framleiðenda til langs tíma og varasamt að hlaupið sé eftir fölskum merkjum um sérstaka gæsku við neytendur.

„Með stofnun Vesturmjólkur er stigið nýtt skref í framleiðslu og úrvinnslu mjókur á Íslandi, þar sem einn hinna téðu útrásarvíkinga, Jóhannes Kristinsson er einn aðaleigandi. Harma Samtök ungra bænda innkomu slíkra aðila í greinina. Er það í hæsta máta óeðlilegt að slíkir aðilar komi inn í atvinnugrein sem byggð hefur verið upp af fólki í sveitum landsins að ætla má með það eitt að markmiði að fleyta rjómann af þeirri framleiðslu er kemur á markað með græðgisvæðingarmarkimið ein að sjónarmiði.

Samtök ungra bænda setja einnig veruleg spurningamerki við að  framleiðsla og úrvinnsla mjólkur á Íslandi færist yfir á eignarhald aðila sem hafa sýnt hafa af sér ákaflega óábyrga hegðun í viðskiptum á undanförnum árum og telja líklegt að innkoma slíkra aðila sé til þess fallin að mjólkurframleiðsla á Íslandi færist á fárra manna hendur í krafti fjármagns. Ekki kemur á óvart hverjir, stjórnmálamenn og embættismenn, eru tilbúnir að verja hagsmuni slíkra afla. Aðdáendur sem voru  meðhlauparar í að kollsteypa stöðugleika á Íslandi," segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert