Viðbúnaðarstig hér á landi vegna svínainflúensu hefur verið lækkað frá hættustigi niður á óvissustig, að því er fram kemur á vef landlæknisembættisins.
Þetta er gert í kjölfar þess að í gær lýsti Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin því að faraldurinn væri genginn yfir og viðbúnaðarstig vegna hans yrði lækkað.
Engar sérstakar aðgerðir verða nú viðhafðar hér á landi vegna svínainflúensunnar aðrar en þær að áfram verður fylgst með útbreiðslu og afleiðingum sýkinga af hennar völdum hér á landi og erlendis til að hægt verði að grípa til frekari ráðstafana með litlum fyrirvara ef þurfa þykir.
Búast má við að svínainflúensan muni á næstu árum ganga sem árleg inflúensa en hún mun væntanlega ekki valda umfangsmiklum faraldri hér á landi eins og haustið 2009, þökk sé útbreiddri bólusetningu, en um 50% Íslendinga hafa nú verið bólusettir. Til er nægilegt bóluefni gegn svínainflúensu sem hægt verður að nota ef ástæða þykir til.