Bannað að skrá erlenda tjónabíla hér

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur beint þeim tilmælum til Umferðarstofu að frá og með 1. janúar 2011 verði ekki heimilt að skrá ökutæki hér á landi sem skráð eru erlendis sem tjónaökutæki og bera slíkt skráningarskírteini með sér. Þessi ökutæki teljast í flestum tilfellum óhæf til endurskráningar í öðrum löndum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umferðarstofu.

Um áratugaskeið hefur viðgengist á Íslandi að flytja inn tjónabíla, þá aðallega frá Bandaríkjunum. Ökutækjum þessum fylgja skráningarskírteini þar sem fram kemur m.a. að þau hafi lent í tjóni og þau teljist af þeim sökum ekki hæf til endurskráningar í viðkomandi landi. Oft hafa ökutæki sem þessi verið keypt á uppboðum í ónothæfu ástandi og þau síðan flutt til Íslands. Eftir lágmarksviðgerð hefur síðan gefist kostur á að skrá ökutækið til aksturs að uppfylltum skilyrðum skoðunar.

„Við skoðunina er fyrst og fremst leitað eftir göllum, bilunum eða skemmdum sem þá stundina geta haft bein áhrif á öryggi ökutækisins en hins vegar gefst ekki kostur á að greina galla sem geta t.d. verið á rafkerfi vegna vatntjóns og öðrum þáttum, sem síðar meir og oft innan skamms tíma, geta haft áhrif á öryggi vegfarenda.

Hafa reglur hér á landi verið túlkaðar mun rýmra en víðast hvar í nágrannalöndum okkar. Umferðarstofu hefur borist vitnisburður um bíleigendur sem keypt hafa svonefnda tjónabíla í góðri trú og án vitundar um það tjón sem bíllinn hefur orðið fyrir og þeir síðan staðið frammi fyrir alvarlegum göllum og skemmdum á bílnum. Í mörgum tilfellum er um vatnstjón að ræða sem auðvelt er að hylja. Það var því bæði með tilliti til krafna um öryggi og ekki hvað síst neytendasjónarmið að Umferðarstofa óskaði eftir umsögn samgöngu og sveitastjórnarráðuneytisins um það hvort að slíkur innflutningur standist ýtrustu túlkun reglugerðar um gerð og búnað ökutækja og reglugerðar um skráningu ökutækja. 

Nú liggur fyrir umsögn ráðuneytisins þar sem fram kemur að með tilliti til umferðaröryggis beri að banna skráningu slíkra ökutækja," segir í tilkynningu frá Umferðarstofu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert