Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir stöðu Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra í uppnámi og nauðsynlegt sé að hann geri Alþingi grein fyrir málum varðandi gengistryggð lán og að atburðarrásin í heild verði rædd.
Vísar Bjarni þar til þess að í ljós hefur komið að Seðlabankinn lét vinna lögfræðiálit í maí 2009 um lánveitingar í erlendri mynt. Svo virðist sem hvorki forsætisráðherra né viðskiptaráðherra hafi vitað af álitinu.
Formaður Sjálfstæðisflokksins vill að Alþingi verði kallað saman til að ræða þá stöðu sem komin er upp. Hann hefur ekki borið slíkt erindi formlega upp við forsætisráðherra en mun gera það ef ekki verður boðað til þingfundar fljótlega. Slíkt eigi ekki að vera mikið mál enda nefndarstörf að hefjast.
Bjarni segir að það sé nauðsynlegt fyrir Alþingi að fara yfir tvennt án frekari tafar. Annars vegar hvernig þessir hlutir atvikuðust frá því að Seðlabankinn og viðskiptaráðuneytið fengu það lögfræðiálit um að öllum líkindum væru margir samningar sem í gangi væru ólöglegir. Hvernig það atvikaðist að frá því þetta lögfræðiálit lá fyrir að því var haldið frá þinginu og ríkisstjórnin lét undir höfuð leggjast að gera nokkrar ráðstafanir alveg þar til dómur féll í Hæstarétti. „Það muna allir hvað ríkisstjórnin var ráðþrota gagnvart dómi Hæstaréttar," segir Bjarni. „Það var horft algerlega fram hjá þessu máli langt fram á þetta ár," bætir Bjarni við.
Bjarni segir að það sé ekki síður alvarlegt að sér hafi líka lagt þetta mál til hliðar þegar verið var að færa eignir yfir í nýju bankana. „Þær hafa að öllum líkindum verið ofmetnar. Það mun sérstaklega í tilfelli Landsbankans geta leitt til mikils tjóns fyrir ríkið. Það er mikilvægt að þingið sé upplýst um þetta," segir Bjarni.
Hann segir það átakanlegt hvernig Gylfi telji að fyrir það eitt að hann hafi ekki verið upplýstur þá beri hann ekki ábyrgð. „Ráðherrann ber auðvitað ábyrgð á öllu því sem fram fer í hans eigin ráðuneyti," segir Bjarni.
Í Morgunblaðinu í dag kom fram að Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, kveðst hafa upplýst yfirmenn sína um lögfræðiálit Seðlabanka Íslands sama dag og hún fékk það sent frá Seðlabankanum. Lögfræðiálitið sneri að ólögmæti erlendrar gengistryggingar lána sem veitt eru í íslenskri mynt.
Gylfi Magnússon sagði í viðtali við Kastljós í fyrrakvöld að hann hefði ekki vitað af álitinu því Seðlabankinn hefði gert þá kröfu að einungis Sigríður mætti berja það augum. Þá hefur aðallögfræðingur Seðlabankans sagt að enginn fyrirvari hafi verið gerður um leynd tölvupóstsins sem innihélt lögfræðiálit Seðlabankans. Sigríður óskaði eftir lögfræðiálitinu því hún vann að minnisblaði sama efnis.
Sigríður kveðst hafa unnið minnisblað sitt í samræmi við verklagsreglur efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og því áframsent lögfræðiálit Seðlabanka Íslands á Jónínu S. Lárusdóttur, þáverandi ráðuneytisstjóra.
„Ég
fékk álitið frá Seðlabankanum og ég áframsendi það á þáverandi
ráðuneytisstjóra efnahags- og viðskiptaráðuneytis samdægurs,“ segir
Sigríður í Morgunblaðinu í dag.