Brugðist við vatnsskorti í Úthlíð

Orkuveita Reykjavíkur hefur gert samning við Bláskógaveitu um að tengjast vatnsveitu Úthlíðar til að bregðast við vatnsskorti vegna lágrar vatnsstöðu í lind sem Úthlíðarveitan sækir vatn til. Að undanförnu hefur verið unnið að samtengingu veitnanna og er áformað að því verki ljúki á næstu dögum.

Segir í tilkynningu frá OR að ástæða þess að vatn hefur verið af skornum skammti í Úthlíð þegar kom fram á sumar eru tvíþættar. Skýringin er annars vegar sú að síðasti vetur var afar snjóléttur og því á litlum forða að byggja fyrir kaldavatnslindina í Bjarnarfelli sem er forðabúr vatnsveitunnar.

Hins vegar hefur úrkoma á svæðinu verið með minnsta móti í vor og sumar. Af þessum sökum er vatnsstaða í lindinni lág og hafa sumarhúsaeigendur liðið fyrir vatnsskort þegar kom fram á sumar, einkum í efri byggðum svæðisins. Fjallað er um vatnsskortinn í Morgunblaðinu í dag.

„Til þess að bregðast við þessu hefur OR samið um að tengjast vatnsveitu Bláskógabyggðar í Austurhlíð og er sú tenging komin á. Til þess að tryggja eins og kostur er nægjanlegt framboð af vatni í Úthlíð þarf að auka þrýsting með því að koma fyrir nýrri dælu á lögninni sem krefst þess að komið verði fyrir dæluhúsi auk heimtaugar frá Rarik sem flytur rafmagn sem knýr dæluna. Nú sér fyrir endann á þessum framkvæmdum og búast má við að viðunandi vatnsframboð með nægjanlegum þrýstingi verði komið á Úthlíðarveitu á næstu dögum.

Rétt er að vekja athygli á því að vatnsveitur víða á landinu hafa átt í erfiðleikum með að tryggja nægjanlegt framboð af vatni þegar langvarandi þurrkar hafa orðið í kjölfar snjóléttra vetra. Takmarkað framboð á vatni þegar þannig háttar til er því þekkt vandamál á Íslandi. Jafnframt er minnt á að skyldur jaðarveitna sem þjóna frístundabyggðum eru ekki hinar sömu og veitna sem þjóna íbúabyggð," segir í tilkynningu frá OR.

Sjá frétt um málið í Morgunblaðinu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert