„Við ætlum að reyna að sleppa út úr því,“ segir Haraldur Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, um stöðuna vegna kostnaðar við árlega flugeldasýningu Menningarnætur. „Við ákváðum að kanna hvort við gætum dregið okkur út úr þessu og tel ég líklegt að við losnum við þennan kostnað.“
Í Morgunblaðinu í gær kom fram að óvíst væri hvort Orkuveitan myndi fjármagna flugeldasýninguna. Búið er að panta flugeldana, það var gert fyrir um sex mánuðum.
Haraldur segir að í ljósi aðstæðna sé mikilvægt að spara þarna eins og annars staðar en lofar því þó að enginn muni þurfa að sitja uppi með skaðann.
Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar, segist bjartsýnn á að frá þessu máli verði gengið og telur að Reykjavíkurborg muni sjá til þess að sýningin verði haldin. „Mér skilst að Reykjavíkurborg sé að safna fyrir þessari sýningu meðal fyrirtækja og stofnana og ætli síðan að borga mismuninn sjálf,“ segir Kristinn sem vonar að allt fari vel.