Ekki hefur enn verið ráðið í stöðu framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs en ráða átti í embættið frá og með fyrsta júlí síðastliðnum.
Hákon Hákonarson, formaður stjórnar sjóðsins, segir að næst verði fundað þann 19. ágúst en hyggur ólíklegt að ákvörðun um ráðninguna verði tekin þá.
Síðast fundaði stjórn Íbúðalánasjóðs snemma í júlí og var þá ákveðið að fresta ráðningunni ótímabundið. Telur lögfræðingur vinnubrögð stjórnarinnar falla illa að reglu stjórnsýslulaga um hraða málsmeðferð, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.