Engir fundir vegna fjárhagsáætlunar

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gagnrýndu á fundi borgarráðs Reykjavíkur í dag, að engar upplýsingar lægju fyrir um vinnu við gerð  fjárhagsáætlunar komandi árs. 

Í bókun fulltrúa flokkanna segir, að samkvæmt tímaáætlun vegna fjárhagsáætlunar hefðu fagráð borgarstjórnar átt að nota tímann frá byrjun júní til að ljúka stefnumótun og forgangsröðun vegna fjárhagsáætlunar, en nú um miðjan ágúst hafi enn ekki neinir fundir verið boðaðir vegna þeirrar vinnu í nokkru fagráði. Ekki hafi heldur verið haldinn neinn fundur í aðgerðahópi borgarráðs vegna fjármála í þessa tvo mánuði og því liggi formlega ekkert fyrir um þá miklu vinnu sem framundan sé vegna fjárhagsáætlunar fyrir komandi ár.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og forseti borgarstjórnar, sagði við mbl.is að borgarfulltrúar minnihlutans hefðu miklar áhyggjur af þessari stöðu. Sagði Hanna Birna, að undanfarin ár hefðu fjármál borgarinnar verið vöktuð viku fyrir viku og því væri ótækt að sumarið hafi liðið án þess að byrjað væri að undirbúa fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. 

Í bókuninni segir, að þetta sé sérstaklega ámælisvert við þær aðstæður sem nú séu uppi í íslensku efnahags- og atvinnulífi þar sem ljóst sé að margar stórar og mikilvægar ákvarðanir þoli ekki frekari bið, svo öruggt sé að fjárhagsáætlun næsta árs tryggi Reykvíkingum áfram trausta og góða þjónustu og varðstöðu um það sem mestu skipti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert