Norðmaður, sem á sumarhús á eyjunni Tromøy syðst í Noregi, segist hafa fundið vikurmola sem án efa eigi rætur sínar að rekja til eldgossins í Eyjafjallajökli í vor.
Jon Einar Tellefsen er jarðfræðingur sem býr í Stafangri. Hann segir við blaðið Agderposten, að þegar hann gekk um fjöruna í Tromøy ásamt Sissel konu sinni hafi þau fundið vikursteina, sem sjórinn hafi örugglega borið með sér frá Íslandi í sumar um 15 þúsund km vegalengd.
Um er að ræða létta steina sem eru á stærð við golfkúlur. Tellefsen segir að það sé eðlilegt að vikurmolar berist að vesturströnd Noregs frá Íslandi en óvenjulegt sé að þeir fari svona langt suður og austur.