Fulltrúar Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks gagnrýndu meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur harðlega í dag á fundi borgarráðs fyrir hringlandahátt í tengslum við flugeldasýningu í lok menningarnætur. Sagði Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, í bókun, að vinnubrögð meirihlutans væru gamaldags, ólýðræðisleg og ógagnsæ.
Á fundi borgarráðs í morgun gagnrýndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, að gengið yrði til samninga við annað fyrirtæki en Orkuveitu Reykjavíkur um sýninguna. Á fundinum fékkst ekki svar við fyrirspurnum borgarfulltrúa um hvaða fyrirtæki yrði samið við en eftir hádegi tilkynnti Höfuðborgarstofa að náðst hefðu samningar við Vodafone um að kosta sýninguna.
„Reykjavíkurborg virðist sjálf hafa haft samband við ákveðna aðila um kostun þrátt fyrir að mun eðlilegra hefði verið að gefa fleirum tækifæri til slíkrar aðkomu, t.d. með því að auglýsa eftir slíkum stuðningi. Þessi vinnubrögð eru fáheyrð í borgarráði og því er óskað upplýsinga um hvar umrædd ákvörðun var tekin og hvers vegna þetta óþarfa uppnám hafi skapast í kringum þetta litla verkefni, sem hefur til margra ára glatt tugþúsundir borgarbúa og felur ekki í sér meiri kostnað en þriggja mánaða laun stjórnarformanns OR," segir í bókun þeirra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Júlíusar Vífils Ingvarssonar.
Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, sagði í bókun Besti flokkurinn hafi lofað sjálfbæru gagnsæi og lýðræðislegri vinnubrögðum í borgarstjórn en áður þekktust.
„ Frá því að samstarf Samfylkingar og Besta flokksins hófst virðast þessi fyrirheit þó hafa gleymst með öllu, enda telja einstakir kjörnir fulltrúar sig hafa umboð til að taka geðþóttaákvarðanir um stór og smá mál án þess að þær séu bornar undir fundi hins fjölskipaða stjórnvalds. Það uppnám sem nú hefur orðið vegna flugeldasýningar á menningarnótt er til komið vegna þessara vinnubragða. Með tveggja vikna fyrirvara berast skilaboð frá Orkuveitu Reykjavíkur um að hún komi ekki til með að kosta viðburðinn sem setur stjórn næturinnar í afar slæma stöðu sem ekki verður unnið úr með gagnsæjum eða viðunandi hætti. Þó þessi ákvörðun sé í sjálfu sér ekki stór, þá er hún táknræn og hefði þurft umfjöllun á þar til bærum fundi. Það var ekki gert og engin svör hafa fengist við því hvar, hvenær eða hvers vegna ákvörðunin var tekin. Það er með öllu óviðunandi og til marks um gamaldags, ólýðræðisleg og ógagnsæ vinnubrögð," segir í bókun Sóleyjar.