Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna gerðu afnot borgarstjóra af vistvænum bíl að umtalsefni á fundi borgarráðs í dag og spurðu meðal annars með hvaða hætti afnotasamningurinn verði túlkaður við framtal til skatts þar sem bíllinn sé hluti af skilgreindum fríðindum borgarstjóra.
Jón Gnarr, borgarstjóri, tók nýjan vistvænan bíl í notkun hinn 5. ágúst en fyrirtækið Nýorka lánar honum bílinn í þrjá mánuði. Óánægjuraddir hafa komið fram um málið en sumir telja það óeðlilegt að borgarstjóri fái bíl til sinna umráða frá einkafyrirtæki án endurgjalds. Jón sagði hins vegar í samtali við Morgunblaðið að þessi samningur sé ekki óeðlilegur.
Í bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokks og VG segir, að þessi ákvörðun borgarstjóra sé ekki aðeins í andstöðu við siðareglur borgarstjórnar, heldur hljóti hún einnig að vera í andstöðu við og vekja spurningar um það gagnsæi og jafnræði sem nauðsynlegt sé að viðhafa í opinberri stjórnsýslu.
Þá segir að skýringar borgarstjóra vegna málsins veki einnig upp spurningar sem nauðsynlegt er að óska svara við. Þannig hafi borgarstjóri sagt, að það sé í raun ekki embætti hans sem hafi afnot af bifreiðinni, heldur Ráðhús Reykjavíkur. Í samningi vegna bílsins segi hins vegar, að um sé að ræða ,,embættisbifreið borgarstjórans“ og embættið hafi hana til umráða ,,án endurgjalds“.
Þá vilja borgarráðsfulltrúarnir m.a. vita hver eigi bílinn, hver hafi flutt hann inn, hvort umrædd þjónusta hafi verið boðin út og hverjir séu hugsanlegir hagsmunir þeirra fyrirtækja, sem komi að endurgjaldslausu láni á bílnum.