150 ný störf fram að áramótum

150 ný störf skapast á þessu ári vegna átaksverkefnis á vegum framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar. Alls verður framkvæmt á vegum Reykjavíkurborgar fyrir 6,5 milljarða í ár.

Borgarráð ákvað fyrr í sumar að breyta forgangsröðun á framkvæmdaáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010 og verja 500 milljónum í átaksverkefnið.

Þar með skapast 150 ársverk en að sögn Hrólfs Jónssonar, sviðsstjóra gætu þau dreifst á fleiri aðila ef eitthvað af þeim verða hlutastörf. „Þetta er 500 milljón króna innspýting í atvinnulíf borgarinnar fram að áramótum.“

Vinna er hafin við fjölda verkefna en í öðrum er verið að semja við verktaka eða undirbúa verðkönnunar- eða útboðsferli.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að milljónirnar 500 muni skiptast svo:
„100 milljónir fara til leikvalla, opinna svæða og endurgerðar gönguleiða.
150 milljónir fara til framkvæmda vegna gönguleiða.
100 milljónir fara til margvíslegra smærri viðhaldsverkefna.
150 milljónir fara í stærri verkefni í Fellaskóla, Seljaskóla og Austurbæjarskóla.“ 

Alls mun Reykjavíkurborg framkvæma fyrir 6,5 milljarða í ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka