Ítölsku pari, sem verið hefur á ferðalagi á Íslandi síðustu vikuna og átti bókað flug til Akureyrar í dag, fannst ástandið í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli einkennilegt. Slökkviliðsmenn komu í veg fyrir að farþegar kæmust um borð í flugvél, sem átti að fara til Húsavíkur klukkan 14.
Ítalarnir heita Candida Colucci og Pier Luigi Della Gatta. Candida sagði við mbl.is, að það kæmi þeim afar illa ef þau kæmust ekki til Akureyrar í dag því þau hefðu bókað þar gistingu og pantað og greitt fyrir útsýnisferð aðl Goðafossi og í Mývatnssveit á morgun.
Ítalska parið ætlaði að sjá til hvort það kæmist til Húsavíkur með flugvél klukkan 16 en slökkviliðsmenn segjast einnig ætla að koma í veg fyrir að sú flugvél komist frá Reykjavík.
Candida sagði að sig hefði dreymt um Íslandsferð í mörg ár. „Það er ótrúlegt, þegar draumurinn loks rætist, að lenda síðan í þessu," sagði hún. Sagðist hún vona, að þau kæmust til Akureyrar í kvöld, ef ekki með flugi þá með rútu.
Mbl.is ræddi einnig við íslenskan farþega sem átti bókað flug til Húsavíkur klukkan 14. Hann sagðist skilja aðgerðir slökkviliðsmanna og hann hefði ákveðið að gera aðrar ráðstafanir til að komast á áfangastað.