Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness gagnrýnir launakjör Geirmundar Kristinssonar fyrrverandi sparisjóðsstjóra í Keflavík harkalega á vef verkalýðsfélagsins. Námu laun Geirmunds 255 milljónum króna á síðasta ári en skerða hefur þurft lífeyrisréttindi fjölda fólks vegna falls sparisjóðsins í fyrra.
Dapurlegt að verða vitni af slíkum ofurlaunum
Lífeyrissjóðurinn
Festa, sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að, tapaði 1,6 milljörðum vegna falls
Sparisjóðs Keflavíkur, að því er Vilhjálmur segir á vef verkalýðsfélagsins.
„Á þeirri forsendu hefur m.a þurft að skerða lífeyrisgreiðslur til handa sjóðsfélögum Verkalýðsfélags Akraness og öðrum sjóðsfélögum sem tilheyra lífeyrissjóðnum vítt og breitt um landið. Á árinu 2009 voru áunninn réttindi sjóðsfélaga Festu lækkuð um 2,5 % og aftur um 5% 2010 og einnig var framtíðarávinnsla lækkuð um 2,5% 2009," skrifar Vilhjálmur og bætir við síðar í greininni að það sé nöturlegt, dapurlegt og í raun ógeðfellt að verða vitni að slíkum ofurlaunum hjá einstaklingi sem stjórnaði banka sem fór jafn rækilega í þrot og raun bar vitni.
„Það er ekki bara að Sparisjóður Keflavíkur hafi verið rekinn með 17 milljarða tapi 2008 og 19 milljarða tapi 2009 heldur töpuðu lífeyrissjóðirnir gríðarlegum upphæðum við fall Sparisjóðsins. Eins og fram kom í fréttum þá kom ríkið inn með 12 milljarða króna í sjóðinn á grundvelli neyðarlaganna. Reikna má með að ríkið leggi á annan tug milljarða í yfirtöku sína á sjóðnum," segir í grein Vilhjálms á vef Verkalýðsfélags Akraness.