Ákveðið hefur verið að aflýsa flugi, sem átti að fara til Húsavíkur klukkan 14 í dag en slökkviliðsmenn stilltu sér upp í brottfararhliðum flugstöðvarinnar á Reykjavíkurflugvelli og komu í veg fyrir að farþegar gætu farið út í flugvélina. Tilkynnt hefur verið um flug til Húsavíkur klukkan 16 en slökkviliðsmenn segjast ætla að stöðva það einnig.
Á þriðja tug slökkviliðsmanna kom í flugstöðvarbygginguna á öðrum tímanum í dag og dreifði blöðum til farþega. Þegar leið að því að kallað yrði út í flugvélina stilltu þeir sé upp í dyrum flugstöðvarinnar og hleyptu farþegum ekki út.
Verkfallsverðir slökkviliðsmanna eru einnig í viðbragðsstöðu á Húsavíkurflugvelli og munu ætla að loka veginum við flugstöðina svo ekki verði hægt að flytja farþega frá Húsavík til Akureyrar með rútum.
Slökkviliðsmenn halda því fram, að það sé verkfallsbrot að flytja flugið frá Akureyrarflugvelli, þar sem slökkviliðsmenn eru í verkfalli, til Húsavíkur eins og Flugfélag Íslands hefur gert á verkfallsdögum slökkviliðsmanna.
Segja þeir að öryggi flugfarþega á Húsavíkurflugvelli sé telft í tvísýnu með lélegum tækjakosti og skyndimenntun starfsmanna.
16 tíma langt verkfall slökkviliðsmanna hófst klukkan 8 í morgun og við það lokaðist Akureyrarflugvöllur fyrir vélum Flugfélags Íslands. Farnar voru tvær ferðir milli Reykjavíkur og Akureyrar í morgun áður en verkfallið hófst og til stóð að fljúga þrjár ferðir til Húsavíkur nú síðdegis og flytja farþega síðan milli Akureyrar og Húsavíkur í rútum.