„Það reynir meira á yfirvinnubannið eftir helgina, þegar þarf að flytja sjúklinga af Landspítalanum á hin sjúkrahúsin,“ segir Björn Zoëga, forstjóri Landspítala, en yfirvinnubann slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna kemur í veg fyrir utanbæjarflutninga á sjúklingum.
Í því felst að t.d. sjúklingar af sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum úti á landi, sem hafa verið til meðhöndlunar eða rannsóknar á Landspítala, verða ekki fluttir aftur í heimabyggð af sjúkraflutningamönnum.
Yfirvinnubann slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna tók gildi um leið og verkfall hófst í morgun, en það mun standa yfir ótímabundið eða þar til kjaradeila þeirra leysist.
„Ef yfirvinnubannið stendur lengi mun það valda okkur vandræðum, þá getum við ekki flutt sjúklingana á minni sjúkrahúsin í heimabyggð þeirra. Það yrði auðvitað slæmt fyrir sjúklingana, að geta ekki verið nálægt sínum ættingjum, en eins munu þeir þá teppa sjúkrarúm og erfitt að taka við nýjum sjúklingum. Sjúklingar munu bara safnast fyrir á sjúkrahúsunum.“
Að sögn Björns hefur starfsemi sjúkrahúsanna gengið vel í dag þrátt fyrir verkfallið en það hægi þó á öllu verkferli.
„Ég vona bara að þetta leysist fljótlega.“