Stjórnlaganefnd, sem Alþingi kaus í sumar, hefur ákveðið að þjóðfundur um stjórnarskrá verði haldinn helgina 6.-7. nóvember. Fundurinn verður skipaður um 1000 fulltrúum, völdum með slembiúrtaki úr þjóðskrá þar sem gætt er að eðlilegri skiptingu þátttakenda af landinu öllu og að kynjaskipting sé sem jöfnust.
Á þjóðfundinum verður kallað eftir meginsjónarmiðum og áherslum almennings um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og breytingar á henni.
Þjóðfundur um stjórnarskrá er liður í endurskoðun á stjórnarskrá lýðveldisins sem nánar er mælt fyrir um í lögum um stjórnlagaþing. Fundurinn er undanfari stjórnlagaþings. Á stjórnlaganefnd að vinna úr upplýsingum sem safnast á þjóðfundinum og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman í febrúar 2011.
Nefndin mun jafnframt annast söfnun og úrvinnslu gagna og upplýsinga um stjórnarskrármálefni sem nýst geta stjórnlagaþingi. Þá mun hún leggja fram hugmyndir til stjórnlagaþings um breytingar á stjórnarskrá.
Um næstu mánaðamót mun stjórnlaganefnd senda út boðun til þjóðfundarins. Jafnframt verður opnuð heimasíða þar sem nánari upplýsingar um fyrirkomulag og efni fundarins verða kynnt. Einnig verða á heimasíðunni margs konar upplýsingar um stjórnarskrármálefni sem ætlað er að stuðla að virkri umræðu um stjórnskipan Íslands.
Í stjórnlaganefnd sitja Guðrún Pétursdóttir, formaður, Aðalheiður Ámundadóttir, Ágúst Þór Árnason, Björg Thorarensen, Ellý Katrín Guðmundsdóttir, Njörður P. Njarðvík og Skúli Magnússon.