Skemmtibáturinn RibSafari í Vestmannaeyjum kom vélarvana gúmbáti til aðstoðar nú í kvöld. Þrír menn voru á siglingu á Zodiac gúmbáti þegar drapst á vél bátsins vestur af Stórhöfða.
Þeir hringdu á Neyðarlínuna sem kallaði út björgunarsveitina í Vestmannaeyjum.
RibSafari var nærstaddur og kom fyrr á vettvang og tók gúmbátinn í tog til hafnar í Vestmannaeyjum.
Mennina í gúmbátnum sakaði ekki.
Gúmbáturinn var staddur nokkuð nálægt landi og er ágætisveður þar sem óhappið varð en hann var farinn að reka frá landi þegar skemmtibáturinn náði til hans.