Höskuldur: Staða Gylfa veikari

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra á Alþingi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég held að það liggi í augum uppi að staða Gylfa er veikari en áður en ég er ekki reiðubúinn að setjast í dómarasæti um hvort hann eigi að segja af sér,“ segir Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins í samtali við mbl.is.

Hann telur að málið endurspegli störf ríkisstjórnarinnar í heild sinni. „Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ráðherrar koma með misvísandi upplýsingar og gögnum sem eru óþægileg fyrir ríkisstjórnina er haldið leyndum.

Icesave málið er augljósasta dæmið, þar var gögnum haldið frá Alþingi af ríkisstjórninni,“ segir Höskuldur. 

Hann segist telja að staða ríkisstjórnarinnar sé „jafn veik og áður“ eftir að meintar misvísandi upplýsingar frá Gylfa Magnússyni efnahags- og viðskiptaráðherra um lögmæti gengistryggðra lán komust í hámæli.

„Ríkisstjórnin hefur frá upphafi verið ósamstíga og virðist ekki alveg hafa ákveðið hvaða leið á að fara til að leiða þjóðina úr þessum ógöngum.

Ég vonast til að þetta mál klárist mjög fljótlega svo við getum farið að einbeita okkur að skuldavanda heimilanna sérstaklega í ljósi þess að hundruð heimila standa frammi fyrir gjaldþrotabeiðnum nú á haustmánuðum,“ segir Höskuldur.

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson. Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert