„Upplýsti Gylfi fjármálaráðherra um þessa stöðu sem ljóst var að hefði mikil áhrif á stofnun nýju bankanna?“ spyr Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins í samtali við mbl.is.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins telur að enn sé mörgu ósvarað um upplýsingagjöf Gylfa Magnússonar, nú þegar Gylfi hafi viðurkennt að strax vorið 2009 hafi veruleg óvissa ríkt um lögmæti gengistryggðra lána.
Hefði átt að koma í veg fyrir að ríkisfé væri varið til að kaupa ólögmæt lán
Hann telur að efnahags- og viðskiptaráðherra þurfi að svara því hvers vegna ekki var tekið meira tillit til óvissunnar við stofnun nýju bankana.
„Þegar ríkið lagði bönkunum til hundruð milljarða í eigið fé þá hefðu menn átt að gera ráðstafnir þannig að ekki væri verið að setja ríkispeninga í að kaupa lán sem gætu reynst ólögmæt.
Miðað við það sem Gylfi hefur sagt sjálfur þá getur tap ríkisins vegna dóma Hæstaréttar um gengislán numið yfir 100 milljörðum króna,“ segir Sigmundur.
Hann telur að efnahags- og viðskiptaráðherra og Seðlabankinn þurfi að greina frá því hvort fjármálaráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, hafi verið greint frá þeirri óvissu sem lék á lögmæti lánanna.
„Þetta mál hlýtur að hafa haft mikil áhrif á endurreisn bankanna sem fjármálaráðuneytið vann þá að. Þar voru gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir ríkið. Ef um var að ræða óvissu eins og lýst hefur verið eftir dóminn þá er stórfurðulegt ef ráðherrarnir hafa ekki rætt það sín á milli,“ segir Sigmundur Davíð við mbl.is