Meiri harka í fangelsunum

Afplánunarföngum hefur fjölgað verulega.
Afplánunarföngum hefur fjölgað verulega. mbl.is/Ómar

Harðsvíraðir erlendir glæpamenn í íslenskum fangelsum og samgangur og samþjöppun fanga sem framið hafa alvarleg afbrot leiða til aukinnar hörku í fangelsum hér á landi.

Þetta er mat Páls Winkels, fangelsismálastjóra, og Jóns Sigurðssonar, deildarstjóra og starfandi fangelsisstjóra á Litla-Hrauni, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.

Á undanförnum árum hefur afplánunarföngum fjölgað verulega og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast frá árinu 2004. 330 manns bíða nú afplánunar. Hlutfall þeirra sem afplána þrjú ár eða fleiri hefur tvöfaldast síðan árið 2004 samkvæmt tölum frá Fangelsismálastofnun ríkisins.

Pall segir, að lögregla hafi að undanförnu haft hendur í hári glæpagengja sem fara jafnvel í heilu lagi í afplánun. Meðlimum gengjanna sé fært að halda innbyrðis tengslum sínum meðan þeir sitja inni þar sem ekki er kostur á að dreifa þeim vegna fjölda þeirra sem nú afplána dóma. Segir Páll dæmi þess að þegar afplánun ljúki haldi gengin áfram samvinnu og þá jafnvel með fulltingi manna sem meðlimir sátu inni með.

Harkan erlend afurð

Að mati Jóns Sigurðssonar, deildarstjóra á Litla-Hrauni og starfandi fangelsisstjóra, er aukin harka fyrst og fremst tilkomin vegna fjölgunar forhertra erlendra glæpamanna innan veggja íslensku fangelsanna. Þeirra heimur sé mun harðari en sá sem þekkist hér og honum fylgi rígur eftir þjóðerni; til dæmis geti verið stirt milli Pólverja og Litháa á Litla-Hrauni. Ekki hafi þó komið til átaka milli manna af ólíku þjóðerni en vart hefur orðið hvassra orðaskipta og jafnvel hótana. Jón segir jaðra við að rígur sé milli erlendra fanga almennt og íslenskra.

Telur Páll að við núverandi aðstæður í fangelsismálum verði því ekki viðkomið að sundra gengjum og vista fanga í fleiri fangelsum eða deildum. Helst hafi þetta tekist á Litla-Hrauni en hann telur fjölgunina vera slíka að þetta sé ekki mögulegt lengur. Jón segir að hingað til hafi gefist ágætlega að skipta mönnum niður á deildir á Litla-Hrauni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert